Hvernig verður fiskeldi í Seyðisfirði?

Fiskeldi Austfjarða hefur allt frá árinu 2012 unnið markvisst að uppbyggingu laxeldis á Austfjörðum og hefur nú sótt um starfs- og rekstrarleyfi í Seyðisfirði. Kvíarnar verða ekki sjáanlegar frá bænum í fyrirhuguðu skipulagi.

Hér er að finna svör við helstu spurningum um áform um eldi í firðinum.

Hver er á bak við verkefnið?

Fiskeldi Austfjarða hf. hóf starfsemi árið 2012 og hefur síðan unnið markvisst að uppbyggingu laxeldis á Austfjörðum. Eftir sameiningu Fiskeldis Austfjarða og Laxa fiskeldis ehf. í ársbyrjun 2022 starfar sameinað félag nú undir merkjum Ice Fish Farm sem skráð er í norsku kauphöllina. Félagið stundar nú þegar laxeldi Fáskrúðsfirði, Berufirði og Reyðarfirði og býr yfir mikilli þekkingu og reynslu á sviði fiskeldis.

Sjá meira

Fiskeldi Austfjarða rekur nú þegar starfsemi í þremur fjörðum; Berufirði, Fáskrúðsfirði og Reyðarfirði. Félagið hefur rekstrar- og starfsleyfi í viðkomandi fjörðunum og er heimilt að ala 9.800 tonn af laxi í Berufirði, 11.000 tonn í Fáskrúðsfirði og 16.000 tonn í Reyðarfirði. Félagið hefur einnig leyfi fyrir 7.000 tonna eldi á ófrjóum fiski í Stöðvarfirði. Stærstu hluthafar félagsins eru Måsøval Eiendom AS, Skinney – Þinganes hf og Ísfélag Vestmannaeyja hf. Heildarfjöldi hluthafa skiptir hundruðum.

Hverjir eru kostir Seyðisfjarðar?

Aðstæður í Seyðisfirði henta afar vel til fiskeldis, enda er fjörðurinn langur, djúpur og endurnýjun sjávar er ör. Auk þess er Seyðisfjörður staðsettur utan friðunarsvæða villtra laxastofna og er því einn af fjörðum Austfjarða þar sem heimilt er að stunda laxeldi.

Sjá meira

Fiskeldi Austfjarða hóf umsóknaferli í Seyðisfirði árið 2014 og síðan þá hefur mikil undirbúningsvinna farið fram. Málið hefur farið í gegnum ýtarlegt umhverfismat hjá Skipulagsstofnun og bíður nú afgreiðslu hjá Matvælastofnun og Umhverfisstofnun.

 

Fiskeldi Austfjarða er ekki fyrsta félagið sem hyggur á eldi í Seyðisfirði, en sambærilegar hugmyndir voru kynntar af hálfu Austlax fyrir um tveimur áratugum síðan síðan.

 

Framkvæmdastjóri Austlax lýsir kostum Seyðisfjarðar vel í bréfi til Skipulagsstofnunar í janúar 2002: „Sem kunnugt er, er Seyðisfjörður langur og djúpur fjörður með mjög góða endurnýjun sjávar, ef til vill eina þá bestu á landinu. Eldi var stundað hér frá 1986 til 1997 án teljandi vandræða hvað eldisþáttinn varðar“.

Hvar verður eldið staðsett í Seyðisfirði?

Í Seyðisfirði verða þrjú eldissvæði sem öll henta vel til fiskeldis með tilliti til staðsetningar, legu og strauma. Svæðin liggja við Sörlastaðavík, Selstaðavík og Skálanesbót. Staðsetning eldissvæðanna tók breytingum í umhverfismatsferli, en lögð var sérstök áhersla á að eldisstöðvar væru utan við helgunarsvæði Farice strengs, að áhrif á sýnileika væru sem minnst og að staðsetning eldisstöðva hefði sem minnst áhrif á siglingar um fjörðinn.

Sjá meira

Í umhverfismatsferli var fjallað um þau svæði fjarðarins sem komu til greina sem eldissvæði. Endanleg ákvörðun byggði meðal annars á athugasemdum sem fram komu um ásýnd fjarðarins frá þéttbýli. Vegna athugasemda sem snéru að sýnileika eldisstöðvar við Háubakka frá þéttbýli var hætt við þá staðsetningu, en eftir stóðu svæðin við Sörlastaðavík, Selstaðavík og Skálanesbót. Svæðin henta öll vel til fiskeldis og eldisstöðvar munu liggja utan helgunarsvæðis sæstrengs og siglingaleiða.

Hversu stórar eru kvíarnar?

Við notum öflugustu eldiskvíar og búnað sem völ er á. Eldiskvíarnar eru gerðar til að þola allt að 9 metra ölduhæð og ísingu og þola úthafsöldu vel. Rúmt verður um eldisfiskinn, en gert er ráð fyrir að þéttleiki verði að hámarki 13 kg á rúmmeter. Allur búnaður sem notaður er við eldi á laxi skal standast viðmið NS 9415, bæði hvað varðar hönnun og uppsetningu. Þannig er tryggt að búnaðurinn hæfi aðstæðum hverju sinni og að uppsetning og frágangur búnaðar sé réttur.

Sjá meira

Hver kví er 50 m í þvermál og 160 m að ummáli. Kvíarnar verða festar saman í þyrpingum sem samanstanda af 10 – 12 kvíum á hverju svæði. Eitt til tvö svæði verða í notkun á hverjum tíma á meðan þriðja svæðið er hvílt. 

Sjást kvíarnar frá landi?

Við stefnum á að reka þrjú eldissvæði í Seyðisfirði og hvert þeirra mun rúma eina eldisstöð. Yfirborðsbúnaður stöðvanna er sýnilegur, en þar er um að ræða kvíar og fóðurpramma sem liggja á yfirborði sjávar. Kvíarnar eru lágreistar og sjást ekki nema úr talsverðri hæð og sýnileiki eykst eftir því sem ofar dregur í hlíðar umhverfis firðina. Sýnileiki er mismikill eftir því hvaðan horft er yfir fjörðinn, en engin eldisstöðvanna kemur til með að verða sýnileg frá Seyðisfjarðarkaupstað.

Hver er framtíð fiskeldis á heimsvísu?

Laxeldi er mest vaxandi matvælaframleiðslukerfi í heimi og hefur neysla á laxi þrefaldast á heimsvísu frá árinu 1980. Samkvæmt World Wildlife Fund eru um 85% villtra fiskistofna heimsins nýttir að fullu eða ofveiddir. Fiskeldi gegnir því lykilhlutverki í að vernda villta nytjastofna og tryggja jarðarbúum – sem verða orðnir 9 milljarðar árið 2050 – aðgengi að góðum próteingjafa. Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur tilkynnt að matvælaframleiðsla í heiminum verði að hafa aukist um 70% árið 2050 frá því sem hún var árið 2009.

 

Fiskeldi er jafnframt afar vænlegur kostur til þess að draga úr umhverfisáhrifum matvælaframleiðslu, enda þarf um fimm sinnum meiri fæðu til þess að rækta nautakjöt en lax. Þannig þurfum við minna af hráefnum til þess að búa til meiri fæðu.

Hvaða lög og reglur gilda um fiskeldi?

Sjá meira

Lög um fiskeldi móta lagaramma um atvinnugreinina. Matvælaráðherra fer með yfirstjórn málaflokksins samkvæmt ofangreindum lögum en framkvæmd stjórnsýslunnar er að öðru leyti í höndum Matvælastofnunar sem hefur eftirlit með því að ákvæðum laganna sé framfylgt. Fiskeldi fellur einnig undir lög um hollustuhætti og mengunarvarnir og heyra þau lög undir umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Framkvæmd stjórnsýslu hvað þann lagabálk varðar er í höndum Umhverfisstofnunar. 

 

Önnur lög og reglugerðir sem ná yfir starfsemi fiskeldis eru til að mynda reglugerð nr. 540/2020 um fiskeldi, reglugerð nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunareftirlit, lög nr. 60/2006 um varnir gegn fisksjúkdómum, lög nr. 66/1998 um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, lög nr. 15/1994 um dýravernd, lög nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim,, reglugerð nr. 1254/2008 um heilbrigðiskröfur vegna lagareldisdýra og afurða þeirra og um forvarnir og varnir gegn tilteknum sjúkdómum í lagardýrum, reglugerð nr. 665/2001 um viðbrögð við smitsjúkdómum og reglugerð nr. 403/1986 um varnir gegn fisksjúkdómum og heilbrigðiseftirlit með fiskeldisstöðvum.

Hvert er umfang starfseminnar?

Sjá meira

Áform okkar gera ráð fyrir allt að 10.000 tonna eldi á laxi í sjókvíum í Seyðisfirði.

Hversu mörg störf skapast

Sjá meira

Starfsemin skapar 15 til 18 heilsársstörf ef gert er ráð fyrir að tvö eldissvæði séu í notkun hverju sinni.

Hefur laxeldi mikil umhverfisáhrif í Seyðisfirði?

Sjá meira

Það er okkur mikið kappsmál að eldið verði stundað í sátt við náttúru og umhverfi og að umhverfisáhrifum verði haldið í lágmarki. Umhverfisáhrif sjókvíaeldis verða einna helst vegna fóðrunar og viðhalds eldisfisks sem leiðir til álags á botn undir sjókvíum. Áhrifin eru talin vera staðbundin og afturkræf. Á eldistíma er stunduð umhverfisvöktun sem gefur góða mynd af ástandi eldissvæðis og nærumhverfis.

Hvert er burðarþol Seyðisfjarðar?

Sjá meira

Hafrannsóknastofnun framkvæmir svokallað burðarþolsmat til að meta þol fjarðar eða hafsvæðis vegna fiskeldis. Burðarþolið segir til um getu fjarðar eða hafsvæðis til að taka á móti auknu lífrænu álagi án þess að það hafi óæskileg áhrif á lífríki og án þess að gæðum vatnshlots hnigni. Burðarþolsmat Seyðisfjarðar er 10.000 tonn. Þetta mat skal endurskoða reglulega og þess er ávallt gætt að eldisheimildir samkvæmt starfs- og rekstrarleyfum takmarkist við burðarþol fjarðarins.

Hefur eldið áhrif á laxveiðiár í nágrenninu?

Sjá meira

Hafrannsóknastofnun framkvæmir sérstakt áhættumat á því hversu mikið magn má ala af frjóum laxi á tilteknu svæði áður en hætta á erfðablöndun eldislaxa við villta laxa er talin óviðunandi. Samkvæmt áhættumatinu má ala 6.500 tonn af frjóum laxi og 3.500 tonn af ófrjóum laxi í Seyðisfirði.

 

Þetta mat er endurskoðað reglulega út frá nýjustu gögnum og fenginni reynslu af laxeldi. Útgefin leyfi til fiskeldis samræmast ævinlega áhættumatinu og starfsemi í Seyðisfirði verður ávallt innan þeirra marka sem áhættumat erfðablöndunar setur.



Hver eru áhrifin á Farice sæstreng?

Sjá meira

Helgunarsvæði Farice nær 463 metra frá strengnum til beggja hliða. Eldisstöðvar í firðinum verða á svæði sem er utan helgunarsvæðis strengsins og innan úthlutaðs eldissvæðis. Fyrirhuguð starfsemi í firðinum mun því ekki hafa áhrif á strenginn og búnaður mun liggja utan helgunarsvæðis hans.

Hver eru hugsanleg afföll?

Sjá meira

Á venjulegu eldistímabili, sem er 14-23 mánuðir, geta afföll verið um 10-15%. Félagið stefnir þó að því að afföll verði undir 5% á komandi árum.

Hvernig eru umhverfisáhrif vöktuð?

Sjá meira

Á sama tíma og við leitumst eftir fremsta megni við að takmarka umhverfisáhrif er afar mikilvægt að rétt sé staðið að allri vöktun.

 

Samhliða eldinu verður stunduð umhverfisvöktun samkvæmt staðli ISO 1287 og umhverfi fjarðarins verður vaktað í samræmi við vöktunaráætlun sem Umhverfisstofnun hefur samþykkt. Þannig metum við áhrif eldisins á umhverfi með reglubundnum hætti og sýnatökuaðilar senda niðurstöður vöktunarinnar til Umhverfisstofnunar.

Er vinnan við eldið jafnmikil allt árið um kring?

Sjá meira

Öll eldisstörf hjá félaginu eru heilsársstörf. Við göngum út frá því að 15-18 starfsmenn vinni við eldið í Seyðisfirði og starfsmannahópurinn mun samanstanda af almennum eldisstarfsmönnum, stöðvarstjórum og aðstoðarstöðvarstjórum. Þá eru ótaldir starfsmöguleikar sem m.a. gætu skapast á skrifstofu, í þjónustudeild félagsins og vegna afleiddra starfa.

Hvernig er eftirliti með starfseminni háttað?

Sjá meira

Matvælastofnun og Umhverfisstofnun hafa eftirlit með starfsemi fiskeldisfyrirtækja. Matvælastofnun hefur m.a. eftirlit með búnaði og dýravelferð en Umhverfisstofnun hefur eftirlit með mögulegri mengun frá starfseminni. Eftirlitsaðilar á vegum stofnananna heimsækja fyrirtækin reglulega og taka út starfsemina, aðbúnað, gæðakerfi og skráningar.

 

Til viðbótar við eftirlit á eldisstöðvunum safna stofnanirnar reglulega upplýsingum um starfsemi fyrirtækjanna, t.d. hvað varðar framleiðslu, fóðurnotkun og umhverfisvöktun. Niðurstöður eftirlits stofnananna auk annarra gagnaskila fyrirtækjanna eru aðgengilegar á vefsvæðum Matvælastofnunar og Umhverfisstofnunar.

Hvar er fiskurinn verkaður?

Sjá meira

Við flytjum fiskinn lifandi með brunnbát í laxavinnsluna Búlandstind á Djúpavogi þar sem hann er verkaður. Þaðan er hann fluttur á markað með skipum eða í flugi.

Hvert er efnahagslegt fótspor fiskeldis?

Sjá meira

Fyrirtæki á sviði sjókvíaeldis greiða tekjuskatt, auðlindagjald og aflagjald auk þess sem félögin greiða árlega í umhverfissjóð sjókvíaeldis.

Hvenær er áætlað að rekstur hefjist?

Sjá meira

Gert er ráð fyrir að starfs- og rekstrarleyfi til starfseminnar verði gefin út árið 2023 eða fyrri hluta árs 2024. Gangi þær áætlanir eftir getur starfsemi hafist vorið 2024.

Hver er umhverfisstefna Fiskeldis Austfjarða?

Sjá meira

Stefna okkar er að byggja upp umhverfisvænt eldi í sátt við náttúru og samfélag. Félagið hefur hlotið umhverfisvottanir frá AquaGap og Whole Foods Market og vinnur þar að auki að innleiðingu ASC vottunar. Vottanirnar gera m.a. sterkar kröfur um sjálfbærni í framleiðslu og rekjanleika og heilnæmi afurða. Félagið leggur ríka áherslu á umhverfisvæna starfsemi og hefur innleitt verklagsreglur og starfshætti sem miða að lágmörkun umhverfisáhrifa.